Fréttaskýring: Samningur við Verne ryður braut annarra

Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ
Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ

Þeir aðilar sem hafa verið að undirbúa uppbyggingu gagnavera hér á landi fylgjast grannt með umræðunni á Alþingi um frumvarp iðnaðarráðherra til staðfestingar fjárfestingarsamnings vegna gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ. Um er að ræða félögin Greenstone, sem er í eigu bandarískra, hollenskra og íslenskra aðila, og Titan Global, sem er í aðaleigu Jónasar Tryggvasonar og Arnþórs Halldórssonar.

Þó að hugmyndir séu uppi um að breyta eðli og gerð svona samninga um erlendar fjárfestingar hér á landi er samningurinn við Verne talinn ryðja brautina fyrir önnur gagnaver á Íslandi. Búið sé að skapa ákveðið fordæmi og tæpast verði mikil frávik í samningum við aðra. Frumvarp iðnaðarráðherra á þó enn eftir að komast í gegnum þingið en miklar umræður hafa sprottið upp um eignarhald á Verne að undanförnu. Þá þarf fjárfestingarsamningurinn að fara fyrir Eftirlitsstofnun EFTA, sem skoðar alla slíka samninga þegar um ríkisstuðning á Evrópska efnahagssvæðinu ræðir.

„Við erum enn að vinna í okkar málum og þá sérstaklega væntanlegur viðskiptavinur Greenstone sem er enn að meta verkefnið út frá fjárhagslegum þáttum, stöðu efnahagsmála í heiminum og áhættumati sem snertir fjölmarga þætti,“ segir Sveinn Óskar Sigurðsson hjá Greenstone. Hann reiknar með breytingu eftir áramót á ferli fjárfestingarsamninga ríkisins vegna erlendra fjárfestinga.

„Við teljum það ferli mjög áhugavert og í raun nútímalegra en það sem verið hefur við lýði til þessa. Iðnaðarráðuneytið hefur kynnt okkur þetta ferli og við teljum það henta Greenstone afar vel og betur en hinn eldri ramma,“ segir Sveinn og telur mikilvægt að gagnsæi og jafnræði ríki í þessum málum.

Ísland alvöruvalkostur

Jónas Tryggvason segir samninginn við Verne Holdings gera þessum iðnaði auðveldara með að fara af stað hér á landi. Fylgst sé grannt með þróun hér af erlendum aðilum. Titan Global hyggst ekki reka sjálft gagnaverið heldur selja það áfram í hendur eins stórs aðila. Jónas segir stórfyrirtæki í upplýsingatækniheiminum hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga. Nú sé hægt að kynna landið sem alvöruvalkost í gagnaversiðnaðinum.

„Við vonumst til að innan þriggja mánaða verði komin endanleg niðurstaða í þetta hjá okkur,“ segir Jónas en Titan Global gerir sér vonir um að fá sambærilega ívilnun og eigendur Verne, sá fjárfestingarsamningur hafi skapað ákveðið fordæmi.

„Ég hef skoðað samninginn við Verne og margt lítur þarna vel út. Það geta varla orðið mikil frávik,“ segir Jónas en þeir Arnþór hafa átt viðræður við m.a. iðnaðarráðherra og Fjárfestingarstofu Íslands. Þar hafa þau svör yfirleitt fengist, að sögn Jónasar, að fyrst þyrfti að ljúka samningum vegna Verne áður en farið yrði að semja við aðra aðila.

„Við höfum því setið rólegir og beðið en þetta hefur tafið okkar áform töluvert. Nú tel ég að hlutirnir geti loksins farið að hreyfast fyrir alvöru,“ segir Jónas.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert