Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, sagði á Alþingi í dag að þar sem enginn liður væri í þingsköpum Alþingis sem héti tapað fundið, þá neyddist hann til að auglýsa eftir því, að tapast hefðu áform ríkisstjórnarinnar um skjaldborg fyrir heimilin í landinu.
„Ég vil biðja þá sem rekast á þessi áform að koma þeim til ríkisstjórnarinnar sem fyrst," sagði Þráinn.
Verið var að greiða atkvæði um einstakar greinar frumvarps um tekjuöflum ríkissjóðs þar sem m.a. er gert ráð fyrir þriggja þrepa tekjuskatti, afnámi sjómannaafsláttar í áföngum og breytingum á fyrirtækjasköttum.
Felld var tillaga frá þingmönnum Framsóknarflokksins um að vísa frumvarpinu frá. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að framsóknarmenn hefðu lagt fram tillögur um að vísa þremur tekjuöflunarfrumvörpum frá og þannig málflutningur dæmdi sig sjálfur við þær aðstæður, sem nú væru. „Þetta heitir að vera óábyrg stjórnarandstaða," sagði Steingrímur.
Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar tjáðu sig í atkvæðagreiðslunni. Þannig sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um þriggja þrepa skattinn, að það væru verstu fréttir, sem launamenn á Íslandi hefðu fengið í áratugi því nú væri sú einföldun skattkerfisins, sem menn hefðu náð fram eftir áratuga baráttu, að engu orðin.
Greinar frumvarpsins voru síðan samþykktar með atkvæðum stjórnarsinna gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga. Frumvarpið verður væntanlega afgreitt sem lög fyrir jól.