Útiloka ekki að Icesave verði hafnað

Alþingi
Alþingi mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Alþingi mun jafnvel hafna Icesave-frumvarpinu þegar það verður tekið fyrir í þriðja og síðasta skipti á þingi, að því er fram kemur í frétt Bloomberg fréttastofunnar í gærkvöldi. Segir í frétt Bloomberg að það geti haft slæm áhrif á samskipti Íslendinga við Hollendinga og Breta og hætta sé á lækkun á lánshæfiseinkunn Íslands.

Bloomberg hefur eftir Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, að erfitt sé að ímynda sér hvað gerist ef Íslendingar samþykki ekki samkomulagið.

Skoðanakannanir bendi til þess að um 70% þjóðarinnar sé andvígur samkomulaginu, en það sé eitt af því sem ríkisstjórnin verði að ganga frá til þess að byggja upp eðlileg erlend samskipti á ný.

Bloomberg vísar þar til orða sérfræðings hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Fitch, Paul Rawkins, sem sagði þann 21. október að samkomulagið við Icesave sé lykilinn að öllu öðru fyrir Íslendinga og það verði að ganga frá samkomulaginu sem fyrst. Hjá Fitch eru skuldabréf íslenska ríkisins skráð einum flokki fyrir ofan ruslflokk. 

Samkvæmt upplýsingum Bloomberg frá leiðtogum stjórnarandstöðunnar munu allir 28 þingmenn stjórnarandstöðunnar reyna að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Þráinn Bertelsson, sem stendur utan flokka, segir í viðtali að ekki sé öruggt að hann greiði atkvæði með í næstu atkvæðagreiðslu.

Lilja Mósesdóttir, VG, segist enn full efasemda, Ögmundur Jónasson, VG vildi ekki gefa upp hvernig hann myndi greiða atkvæði og Bloomberg vísar til fyrri ummæla Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar um að ekki liggi fyrir hvernig þeir muni greiða atkvæði.

Þriðja umræðan muni fara fram fyrir áramót, að sögn Björn Vals Gíslasonar.

Sjá frétt Bloomberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert