Þingmenn Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi, um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-málið. Þingmennirnir hafa áður flutt samsvarandi þingsályktunartillögu. Höskuldur Þórhallsson er fyrsti flutningsmaður.
Tillgaran hljóðar svo: „Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi nýja ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Spurningin sem lögð yrði fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu hljóði svo: „Á Alþingi Íslendinga að samþykkja breytingar á ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009.““
Í greinargerð segir að ekki liggi ljóst fyrir hverjar endanlegar skuldbindingar ríkissjóðs verði, enda fari það eftir virði eignasafns Landsbankans. Heildarfjárhæðin gæti hins vegar numið 700-750 milljörðum króna. Minnst er á helstu röksemdir gegn samþykkt Icesave-samninganna
„Mikilvægt er að spurningin sjálf komi fram í tillögugreininni svo að framsetning spurningarinnar vefjist ekki fyrir þeim þingmönnum sem greiða tillögunni atkvæði sitt og færi spurningin því óbreytt í dóm þjóðarinnar.
Ljóst er að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu ekki bindandi í sjálfu sér. Þó má telja að Alþingi og ríkisstjórnin mundu í kjölfarið lúta niðurstöðu hennar, eins og títt er í nágrannalöndum okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru bindandi fyrir stjórnvöld. Lagt er til að atkvæðagreiðslan fari fram eins fljótt og auðið er og í samræmi við frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem nú er til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd þingsins, sbr. þskj.5, 5. mál." segir í greinargerðinni.