Alþingi samþykkti í dag lög um ráðstafanir í skattamálum, þar sem meðal annars er kveðið á um að efra þrep virðisaukaskatts hækki úr 24,5% í 25,5%. Fallið var hins vegar frá hugmyndum um að taka upp sérstakt 14% þrep í virðisaukaskatt.
Frumvarpið var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 20 en einn sat hjá. Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að skattahækkanir nú gerðu það að verkum að líkur væru á meiri samdrætti og dýpri kreppu en ella.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að verið væri að ráðast í nauðsynlegar hækkanir á neyslu- og þjónustugjöldum vegna hrunsins. Hann vakti athygli á því, að með frumvarpinu væri einnig verið að framlengja heimildir til að greiða út séreignasparnað, sem hefði hjálpað mörgum á þessu ári við að takast á við erfiðleika í fjármálum.
Alþingi samþykkti einnig lög um tímabundna fjölgun héraðsdómara. Enginn ágreiningur var um þetta mál á Alþingi og voru lögin samþykkt með 51 atkvæði.