Um langt skeið hefur verið unnið að ritun Sögu Akraness af Gunnlaugi Haraldssyni þjóðháttafræðingi. Ýmsum finnst ritunin hafa tekið langan tíma og verið kostnaðarsöm án þessa að stafur hafi komist á prent, segir á vef Skessuhorns.
Fram kemur að bæjarstjórn Akraness hafi jafnan orðið við því að bæta við fjárveitingum til verksins án þess að því hafi fylgt mikil umræða eða bókun í bæjarstjórn. Á bæjarstjórnarfundi í vikunni sem leið brá þó öðru við og ljóst að farið er að reyna talsvert á langlundargerð bæjarstjórnar, segir á vef Skessuhorns.
Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, lagði fram eftirfarandi bókun á bæjarstjórnarfundinum:
„Í rúm 10 ár hefur núverandi sagnaritari þegið greiðslur frá Akraneskaupstað, samtals að upphæð 73.337.692 kr. miðað við uppreiknaða vísitölu, fyrir það eitt að rita sögu Akraneskaupstaðar. Þau tæp fjögur ár sem ég hef setið hér sem bæjarfulltrúi hafa verið gerðir í það minnsta þrír samningar um verklok. Í gegnum tíðina hafa bæjarfulltrúar og nefndarmenn í góðri trú samþykkt/keypt þau rök sem sagnaritari hefur lagt á borð fyrir þá í þeirri trú að senn líði að verklokum. Nú er svo komið að ég hef misst alla tiltrú á orðum sagnaritarans og get því ekki greitt atkvæði með nýjum samningi,“ segir í bókun Karenar.
Bæjarstjórnin staðfesti samþykkt bæjarráðs og vísaði fjármögnun til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2009.