Áslaug María sækist eftir 4. sætinu

Áslaug María Friðriksdóttir
Áslaug María Friðriksdóttir

Áslaug María Friðriksdóttir, formaður Hvatar og varaborgarfulltrúi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 4. sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík, í prófkjörinu 23. janúar vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Áslaug María, sem fer nú í prófkjör í fyrsta sinn, hefur sem varaborgarfulltrúi gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurborg frá 2006. Hún er formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, situr í umhverfis- og samgönguráði og sat áður í leikskólaráði. Áslaug stofnaði fyrirtækið Sjá viðmótsprófanir ehf. Fyrirtækið var það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur verið leiðandi á sviði rannsókna og úttekta á notendahegðun á vefnum, segir í tilkynningu frá henni.

Áslaug María situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, var fyrst kjörin á landsfundi 2007 og svo endurkjörin 2009. Hún hefur verið formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna frá 2006.

Í yfirlýsingunni segist Áslaug María hafa áhuga á borgarmálunum og vera reiðubúin að slást í hóp öflugra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Áslaug María er með mastersgráðu í vinnusálfræði frá University of Hertfordshire í Englandi. Hún er framkvæmdastjóri Sjá ehf. Áður var Áslaug deildarsérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og sinnti þar málefnum fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Hún er fædd og uppalin í Reykjavík. Sambýlismaður Áslaugar er Hjálmar Edwardsson og eiga þau tvo drengi en Áslaug á jafnframt eina dóttur. Foreldrar Áslaugar Maríu eru Friðrik Sophusson, fyrrverandi forstjóri, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Helga Jóakimsdóttir, hárgreiðslumeistari og alexandertæknikennari.

Áslaug María er með vefsíðuna www.aslaug.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert