Baugsféð uppurið

Fyrrum höfuðstöðvar Baugs sem var einn helsti bakhjarl Hins íslenska …
Fyrrum höfuðstöðvar Baugs sem var einn helsti bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags í góðærinu. mbl.is/Sæberg

Útlit er fyrir að útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags dragist saman á næsta ári enda nýtur félagið ekki lengur stuðnings auðmanna við útgáfuna, að sögn Sigurðar Líndals forseta félagsins. Baugur lagði félaginu til 19 milljónir króna þegar góðærið stóð sem hæst.

Breytt stað bókmenntafélagsins er hluti af stærri heild þar sem fjölmargar menningarstofnanir hafa þurft að draga saman seglin í kjölfar þess að fyrrum bakhjarlar fóru illa út úr fjármálahruninu.

Inntur eftir því hvers vegna félagið hafi leitað til Baugs segir Sigurður að styrkja hafi verið leitað víða. Hins vegar hafi aðeins Baugur og Landsbankinn orðið við styrktarbeiðninni á sínum tíma og síðarnefnda fyrirtækið gerst sérstakur bakhjarl lærdómsritanna sem séu orðin 75 að tölu. Framlag bankans hafi numið einni og hálfri milljón króna á ári.

„Við höfum minnt Nýja Landsbankann á þetta en ég veit ekkert um undirtektir enn þá. En auðvitað er þetta barningur því að staðreyndin er sú að öll fræðirit, bæði hér á landi og í nálægum löndum, svona veigameiri fræðirit, eru kostuð af annað hvort opinberum aðilum eða einkaaðilum, eða sérstökum sjóðum.

Þau eru ekki markaðsvara í bókstaflegum skilningi. Þetta er langtímamarkaður og með þeim vöxtum sem eru er ljóst að það er alveg vita vonlaust að gefa slíkt út án styrkja.“

Þekkti aðeins Hrein Loftsson

- Hvað kom til að Baugur fór að styrkja félagið?

„Það er ekkert leyndarmál. Ég sneri mér til tveggja aðila, Baugs og Landsbankans, og kannaði hvort þeir vildu styðja okkur. Það var ekkert öðruvísi. Ég þekki öngvan mann hjá Baugi nema lögfræðinginn Hrein Loftsson [...] Þetta er ekkert annað en það að það er stundum sagt að það eigi að leita til atvinnulífsins og að það eigi að styðja menninguna.

Ég hef leitað til ýmissa fleiri en ekki fengið undirtektir. Ég hef leitað í ýmsar áttir og þyrfti að kanna bréfaskriftir mínir til að rifja það upp. Þetta er það sem að allir gera.“

Nýtt til að grynnka á skuldunum

Aðspurður í hvað féð frá Baugi hafi farið segir Sigurður það hafa farið í að „grynnka á skuldum og ýta undir þau rit sem félagið hafi verið að gefa út undanfarið“.

- Hversu miklu munar að vera ekki lengur með þetta fé frá Baugi?

„Það náttúrulega munar því að við verðum að draga eitthvað saman á næsta ári. Mér þætti það ekkert ótrúlegt. En ef þjóðin vill menntast erum við í góðum málum en mér sýnist hún frekar vilja afþreyinguna.“

- Það eru engar vísbendingar um að það séu að koma aðrir og jafn öflugir bakhjarlar inn í þetta?

Ég sé það nú ekki fyrir mér og svo hefur ríkið skorið okkur heldur hressilega niður. Við vorum síðast með 8 milljónir. Og þá verð ég að benda á eitt. Við látum skólakerfið hafa mikið af lesefni en því miður getum við ekki selt eins mikið [og við þyrftum] því það er ljósritað miskunnarlaust úr bókunum og jafnvel skannað án okkar leyfis.“

Lærdómsritin hafa um margt verið flaggskip félagsins en aðspurður um kostnaðinn við að þýða hvert verk segir Sigurður hann mjög misjafnan.

Dæmi séu um að þýðingar séu unnar ókeypis og bendir Sigurður á að erfingjar Sverris Kristjánssonar hafi gefið félaginu útgáfuréttinn að þýðingu hans á kommúnistaávarpinu.

Fjölbreytt útgáfa

Aðspurður um jólavertíðina í ár nefnir Sigurður að X. bindi Sögu Íslands hafi komið út í ár og XIII. og XIV. bindi Kirkjusögu Íslands. Þær síðarnefndu séu dýrar bækur sem félagið myndi ekki ráða við eitt og sér. 

Þá beri að nefna ritið Rússa sögur og Igors kviðu, Shakespeare á meðal vor eftir Jan Kott í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, Stjórnmál og bókmenntir eftir George Orwell og bók um arkitektinn Manfreð Vilhjálmsson.

Prófessor Sigurður Líndal.
Prófessor Sigurður Líndal. mbl.is/Ómar
Kommúnistaávarpið var gef út sem lærdómsrit.
Kommúnistaávarpið var gef út sem lærdómsrit.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka