Brýtur ekki í bága við Icesave

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir það misskilning að frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta geti ekki orðið að lögum þar sem það brjóti gegn Icesave-samningnum líkt og haldið hafi verið fram í fjölmiðlum í dag.

„Fjölmiðlar hafa í dag fjallað um skýrslu bresku lögmannstofunnar Mischon de Reya sem vann álit fyrir fjárlaganefnd vegna umræðna á Alþingi um frumvarp fjármálaráðherra varðandi ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF).

Fullyrt hefur verið að frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta geti ekki orðið að lögum þar sem lögmannsstofan komist að þeirri niðurstöðu að lánasamningur TIF við breska og hollenska fjármálaráðuneytið leyfi ekki að íslenska ríkið stofni nýjan innstæðutryggingasjóð.

Hér gætir mikils misskilnings á eðli frumvarpsins um TIF og niðurstöðu Mischon de Reya sem vert er að leiðrétta.

Fyrst ber að geta þess að lögmannsstofan kemst að þeirri niðurstöðu að skv. grein 12.1.10 í samningi TIF valdi það samningsrofi ef tryggingasjóðurinn yrði leystur upp eða honum lokað eða ef einhver breyting er gerð á íslenskum lögum sem ylli því að TIF gegndi ekki hlutverki tryggingasjóðs innstæðueigenda í Landsbanka Íslands hf (LÍ).

Breytingar á lögum um TIF sem breyta engu um ábyrgð gagnvart innstæðueigendum LÍ og aðeins varða tryggingar innstæðueigenda í öðrum bönkum sem starfandi eru á Íslandi falla því eðli málsins samkvæmt ekki undir ákvæði þessarar greinar. Í öðru lagi sést glögglega á frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra að í því eru ekki fólgnar breytingar á hlutverki TIF gagnvart innstæðueigendum þar sem þegar hefur myndast greiðsluskylda, þar með töldum LÍ. Öll ákvæði laganna sem varða þessar innstæður verða enn í fullu gildi," að því er segir í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Ætlunin er að skipta tryggingasjóðnum í tvær deildir. A-deild verður fjármögnuð með iðgjöldum starfandi innlánsstofnana og verður því bakhjarl fjármálakerfisins til framtíðar.

B-deildin tekur við núverandi skuldbindingum sjóðsins. Verður B-deild lögð niður þegar greiðslu skuldbindinga hennar er lokið vegna ábyrgða sem fallið hafa á innstæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku laganna.

„Ljóst er því að engar breytingar verða á hlutverki og skyldum TIF gagnvart innstæðueigendum í LÍ. Þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpi um innstæðutryggingar breyta engu um hlutverk núverandi tryggingasjóðs en stofnun nýrrar deildar tryggingasjóðsins og fjármögnun hennar verður almenningi og innlánsstofnunum ótvírætt til hagsbóta.

Kröfuhafar í þrotabú föllnu bankanna eiga ekki síður mikið undir því að rekstur nýju bankanna og fjármögnun með innlánum standi traustum fótum. Engin ástæða er því til annars en að ætla að kröfuhafar fagni því að innstæðutryggingakerfið verði treyst í sessi," samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert