„Mér sýnist þetta álit vera ítarlegt og vandað, og staðfesta þær efasemdir sem ég hef haft um þennan samning,“ segir Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður um álit bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya á Icesave-samningnum.
Ragnar segir álitið staðfesta að fyrirvari sem kenndur hefur verið við hann, og fjallar um forgangskröfur úr þrotabúi Landsbankans, hafi verið verulega þynntur út. Um mikið hagsmunamál sé að ræða, enda geti kostnaður okkar Íslendinga vegna málsins hækkað um hundruð milljarða króna hljóti íslenski innistæðutryggingasjóðurinn ekki greiðslu úr þrotabúinu á undan þeim breska og hollenska.
„Í áliti stofunnar felst að mínu mati að samningurinn sé ótækur fyrir Ísland. Ég er þeirrar skoðunar að ekki koma til greina að samþykkja samninginn eins og hann liggur fyrir.“