Icesave tekið út úr nefnd

Stuttur fundur var í fjárlaganefnd í hádeginu þar sem Icesave-frumvarpið …
Stuttur fundur var í fjárlaganefnd í hádeginu þar sem Icesave-frumvarpið var tekið út úr nefndinni. Heiðar Kristjánsson

Búið er að taka frumvarpið um Icesave út úr fjárlaganefnd. Þessi ákvörðun var tekin í andstöðu við stjórnarandstöðuna sem vildi fara betur yfir umsagnir sem hafa verið að berast nefndinni síðustu daga.

Meirihluti fjárlaganefndar segir hins vegar að staðið hafi verið í einu og öllu við það samkomulag sem gert var á milli formanna stjórnarandstöðunnar og forseta Alþingis um meðferð þessa málsins.

„Það er enginn bragur á þessari málsmeðferð," sagði Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðun meirihlutans að taka málið úr nefnd. Hann sagði að það hefðu verið að koma fram ný gögn um málið síðustu daga sem ekki hefði gefist tími til að fara yfir. Nýtt mat frá Seðlabanka hefði t.d. verið lagt fram á fundi nefndarinnar í hádeginu. Nefndin hefði óskað eftir að IFS legði fram mat á frumvarpinu, en verkplan fyrirtækisins hefði verið að skila álitnu á morgun, Þorláksmessu.

Stjórnarmeirihlutinn stefnir að því að láta greiða atkvæði um Icesave-frumvarpið milli jóla og nýárs.

Fundum þingsins er nú lokið fyrir jól en gert er ráð fyrir að Icesave-frumvarpið verði tekið til umræðu mánudaginn 27. desember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert