Kassi af rauðvíni mun hækka um 381 krónu

Gert er ráð fyrir því að áfengi og tóbak hækki í verði um næstu áramót eftir að Alþingis samþykkti í gær hærri álögur á þessar vörutegundir.

ÁTVR hefur reiknað út hverjar hækkanir verða um áramótin. Samkvæmt þeim útreikningum mun algeng rauðvínsflaska hækka um rúmar 100 krónur, eða 5,3%. Þriggja lítra rauðvínskassi mun hækka um 381 krónu, eða 7,8%, hálfs lítra bjórdós um 19 krónur eða 5,7% og þriggja pela vodkaflaska um 373 krónur eða 8,5%.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að þessir útreikningur geri ráð fyrir að aðfangaverð frá birgjum verði óbreytt, þ.e. einungis verði breyting vegna áfengisgjalds og virðisaukaskatts.

ÁTVR kaupir áfengi frá innlendum birgjum en í innkaupsverði til ÁTVR eru áfengisgjöld innifalin.

»Við sjáum ekki heildarbreytinguna fyrr en birgjar hafa tilkynnt til okkar ný aðfangaverð sem verður alveg á næstu dögum,« segir Sigrún

Verð á áfengi hefur áður hækkað tvívegis síðustu 12 mánuði. Fyrri verðhækkunin var í desember í fyrra þegar Alþingi samþykkti 12,5% hækkun á áfengisgjaldi. Seinni hækkunin varð í maí sl. þegar Alþingi samþykkti 15% hækkun á gjöldum á áfengi og tóbaki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert