Lagalegur efi um skuldbindingar

Í lögfræðiáliti bresku lögfræðistofunnar Mishcon de Reya fyrir fjárlaganefnd Alþingis er fjallað í löngu máli um evrópska innistæðutryggingakerfið án þess að komist sé að skýrri niðurstöðu.

Lögfræðistofan segir þó að það ríki ljóslega lagalegur efi á að aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu beri skylda til að tryggja lágmarksgreiðslur úr innistæðutryggingasjóði ef sjóðurinn getur ekki staðið undir þeim skuldbindingum.

Lögfræðistofan vísar m.a. til ýmissa heimilda, þar á meðal ummæla hollenska fjármálaráðherrans sem sagt var frá í Morgunblaðinu nýlega, sem benda til þess að innistæðitryggingakerfinu hafi ekki verið ætlað að veita vernda sparifjáreigendur gegn algeru fjármálahruni í einu landi. Hins vegar sé alls ekki víst að þessi rök haldi þegar til eigi að taka fyrir dómstólum.

Óskýr ákvæði samningsins

Lögfræðistofan gerir ýmsar athugasemdir við það samkomulag, sem íslensk stjórnvöld gerðu við Breta og Hollendinga um Icesave-skuldbindingarnar í október sl. Er þeirri skoðun lýst, að mörg atriði samningsins séu ekki skýr.

Meðal annars er vísað til þess, að samkvæmt samningnum geti lánardrottnarnir ekki gengið að þeim eignum íslenska ríkisins, sem falli undir Vínarsáttmálann og eignir sem séu nauðsynlegar til að Ísland geti uppfyllt skyldur sínar sem sjálfstætt ríkii. Þá eru eignir Seðlabankans einnig undanskyldar.

Mishcon de Reya segir að ekki komi fram hvaða Vínarsáttmála sé átt við þótt líklega sé verið að vísa til Vínarsáttmálans um diplómatísk samskipti frá árinu 1961.

Þá sé heldur ekki skýrt hvaða eignir séu nauðsynlegar svo Ísland geti gegnt skyldum sínum sem sjálfstætt ríki. Líklegt sé að hernaðareignir falli undir þetta ákvæði en óljóst sé hvort það eigi við um eignir á borð við ríkisfyrirtæki, skólabyggingar eða sjúkrahúsbyggingar sem séu nauðsynlegar til að halda úti almannaþjónustu en ekki til að viðhalda sjálfstæði Íslands.


Segir lögfræðistofan, að orðalagið í samningnum og lögunum, sem Alþingi setti síðsumars um þetta efni, sé ekki endilega sambærilegt. Í lögunum segir, að forsenda fyrir ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna sé að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert