Þann 1. desember 2009 voru íbúar með lögheimili á Íslandi 317.593. Ári áður var íbúafjöldi 319.756 og hefur þeim því fækkað milli ára um 2163 íbúa eða 0,7%. Mest er fækkunin hlutfallslega á Austurlandi. Þar fækkaði um 431 einstakling, eða 3,3% frá fyrra ári.
Samkvæmt tölum, sem Hagstofan birti í morgun, stafar fækkun landsmanna einkum af fækkun fólks með erlent ríkisfang en því fækkaði milli ára um 3099 manns. Íslenskum ríkisborgurum fjölgaði hins vegar um 936 frá 1. desember 2008.
Jafnframt tölum um mannfjöldann 1. desember birti Hagstofan tölur um skiptingu landsmanna 16 ára og eldri eftir trúfélögum og sóknum. Hinn 1. desember síðastliðinn voru sóknarbörn í Þjóðkirkjunni 16 ára og eldri 194.903 talsins en það er fækkun um 673 frá fyrra ári. Hlutfallslega fjölgaði hins vegar sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar úr 78,6% í 78,9% af öllum 16 ára og eldri. Þetta skýrist einkum af því að mannfækkun á árinu var mest meðal þeirra sem stóðu utan við Þjóðkirkjuna.