Óásættanleg innherjapólitík einkennir aðgerðir stjórnarmeirihlutans á Alþingi í Icesave-málinu, að mati formanns og þingflokksformanns Framsóknarflokksins, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Gunnars Braga Sveinssonar. Segir í tilkynningu frá þeim að aðferðir ríkisstjórnarinnar minni um margt á aðferðir sem ollu efnahagshruninu á síðasta ári. Þeir telja það mikið áhyggjuefni að stjórnvöld skuli nú rétt rúmu ári eftir efnahagshrunið beita slíkri innherjapólitík til að komast hjá gagnrýni og bókhaldsæfingum til að fela staðreyndir málsins.
„Varla uppfyllir Alþingi eftirlitsskyldu sína í Icesave-málinu með því að biðja þá sem unnu að gerð samningsins að leggja mat á samninginn og þá sem sömdu frumvarpið til að leggja mat á frumvarpið," segir í tilkynningunni og vísa þeir þar í álitsgerð bresku lögmannsstofunnar Ashurst um Icesave-samningana og álitsgerð höfunda Icesave-frumvarpsins um það hvort það standist stjórnarskrá eða ekki.
Þeir segja einnig að samkomulag ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um Icesave-málið hafi verið brotið í dag, þegar málið var tekið út úr fjárlaganefnd. IFS-greining hafi ekki fengið tíma til að vinna fullbúið álit til morguns.
„Í samkomulagi sem náðist milli minni- og meirihlutans á Alþingi með milligöngu forseta þingsins var kveðið á um að ensk lögmannastofa yrði fengin til að leggja mat á Icesave-samningana sem nú eru í meðförum þingsins. Stjórnarandstaðan hefur mánuðum saman kallað eftir því að sú vinna færi fram enda sætir það furðu að ekki skuli hafa farið fram óháð mat sérfræðinga í enskum lögum á samningunum þrátt fyrir að um þá eigi að gilda ensk lög og enskir dómstólar skuli skera úr um þann ágreining sem kann að rísa.
Það sætir furðu að meirihlutinn skuli hafa farið á svig við samning þann sem gerður var við minni hlutann á Alþingi með þessum hætti sem og að meirihlutinn telji sig þurfa að skapa mótvægi við hlutlaust álit. Þ.e. ef það álit kynni að leiða fram styrkleika í málstað Íslands í Icesave-deilunni," segja þeir Sigmundur og Gunnar Bragi.