„Það sem stendur upp úr í áliti Mishcon de Reya er að fyrirvarar Alþingis frá því í sumar eru að engu orðnir, það hallar gríðarlega á hagsmuni Íslands, það er ekkert jafnvægi á milli samningsaðila, og það er fjallað um hina lagalegu skyldu á þann veg að hún sé í reynd ekki til staðar,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks. Álitið staðfesti því málfutning stjórnarandstöðunnar í meginatriðum.
Um álit Ashurst segir Bjarni að aðdragandinn að því sé heldur einkennilegur.
„Þegar ljóst var að þingið ætlaði að kalla eftir áliti, rýkur ríkisstjórnin til og kallar eftir öðru áliti. En málið er á forræði þingsins, ekki ríkisstjórnarinnar.“ Álitunum tveimur verði ekki heldur saman jafnað. „Álit Ashurst er pólitískt og fjallar um að menn eigi enga aðra valkosti en að ganga frá þessum samningum. Við þurfum ekki lögfræðilegt álit til að segja okkur hverjir pólitískir valkostir okkar séu.“