„Allir eru komnir í jólaskap, en þetta mál er búið að plaga okkur í mörg ár og standa í vegi fyrir uppbyggingu hér í Þorlákshöfn,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Ölfuss, en hafist var handa við það í gær að flytja lyktareyðandi búnað að skreiðarverkunarverksmiðju Lýsis í Þorlákshöfn.
Um er að ræða tvo stóra tanka sem hafa verið í smíðum hjá vélsmiðju Héðins í Hafnarfirði, sem hefur sérhæft sig í lykteyðandi lausnum fyrir fráveitur sveitarfélaga.
Uppsetning búnaðarins mun taka nokkrar vikur en að því loknu ættu Þorlákshafnarbúar að vera lausir við „peningalyktina“ sem lagt hefur yfir bæinn frá skreiðarverkuninni, íbúum til mikils ama. Hefur það að auki tekið nokkurn tíma að fá leyfi til að setja búnaðinn upp.
Lykteyðingarbúnaðurinn byggir á umhverfisvænu íslensku hugviti, sem Kjartan Örn Ólafsson, svæðisstjóri Lýsis í Þorlákshöfn, á heiðurinn af ásamt starfsmönnum Héðins.
Sjá nánari umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.