Viss blekking í úrræðum bankanna

mbl.is

Hagsmunasamtök heimilanna segja að allar lausnir banka og stjórnvalda á skuldavanda heimilanna eigi það sameiginlegt að greiðslubyrði lána lækki til að byrja með. Hafa samtökin gert samantekt á áhrifum þessara úrræða og er hægt að nálgast þá samantekt í heild sinni hér að neðan.

„Sumar tryggja litla lækkun (Landsbankinn), en aðrar umtalsverðar (greiðslujöfnun). Gallinn á þeim flestum (öllum nema hjá Arion banka) er að heildargreiðslubyrðin verður meiri ef lántakar þiggja leiðréttinguna, en ef fólk reynir að þrauka," segir í tilkynningu frá samtökunum.

Segja þau niðurstöðuna furðulega, þar sem AGS hafi upplýst í skýrslu þann 3. nóvember að töluvert svigrúm sé til staðar hjá öllum bönkunum til að lækka verulega greiðslu- og skuldabyrði heimilanna. Allt að 44% hjá stóru bönkunum þremur. ,,Raunar gekk Mark Flanagan, sendifulltrúi AGS, svo langt að segja á fundi með stjórnarmönnum HH, að sjóðurinn vildi sjá allt svigrúmið nýtt og nákvæmlega það. Hvorki krónu minna né meira," segir í tilkynningunni.

20-50% lækkun höfuðstóls lána mögulegur hjá bönkunum

Lausnir bankanna fela að mati Hagsmunasamtaka heimilanna í sér vissa blekkingu. Boðið sé upp á mikla, tímabundna lækkun mánaðarlegra greiðslna. Byggi þetta að mestu á því að lækka verulega afborgun af höfuðstóli láns en sækja í staðinn meiri vexti til lántaka.

„Vissulega mun þessi tímabundna lækkun vara (miðað við vexti í dag) í 8 til 13 ár eftir bönkum (að undanteknum Landsbankanum sem varir í 31 mánuð), en eftir það byrja bankarnir að vinna upp hvern þann afslátt sem lántakar fá fyrstu árin."

Ef haft er í huga, að bönkunum er ætlað að skila til lántaka þeim afslætti, sem þeir fá frá kröfuhöfum sínum eða kröfuhöfum eldri birtingarmynda sinna, þá eru lausnir þeirra langt frá því að vera fullnægjandi né í takt við það sem þeim er í raun uppálagt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa reiknað út að þarna muni tugum prósenta varðandi gengistryggð lán og minnst 10% þegar verðtryggð lán eiga í hlut.

Án þess að farið verði nánar út í það hér, þá er það mat Hagsmunasamtaka heimilanna að ef stóru bankarnir þrír eiga að skila öllum afslættinum, sem þeir fengu frá gömlu bönkunum, þá geti þeir veitt 50% afslátt af höfuðstóli gengistryggðra lána og 20% afslátt af höfuðstóli verðtryggðra lána," segir í tilkynningunni.

Það er skoðun samtakanna, að svigrúm bankanna til að koma til móts við viðskiptavini sína sé mjög illa nýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka