Jólaverslunin náði hámarki í kvöld og lögðu margir leið sína í miðbæ Reykjavíkur, eins og svo oft á Þorláksmessukvöldi. Margskonar viðburðir og tónlistaratriði voru í boði fyrir gesti og gangandi við Laugaveginn og tóku tenórarnir þrír, þeir Garðar Cortes, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Snorri Wium lagið í jólaþorpinu.
Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík hefur allt farið vel fram í kvöld og jólaandinn verið ríkjandi. Lögregla áætlar að um níuleytið í kvöld hafi á bilinu fimm til sex þúsund manns verið í miðbænum. Telja þeir sem rætt hefur verið við að þótt umferð hafi verið talsverð í bænum hafi hún verið talsvert minni en undanfarin ár, á Þorláksmessu.