Kaupmenn í Vestmannaeyjum neita almennt að selja Fréttablaðið og mótmæla með því mismunun á íbúum eftir búsetu. Ein undantekning er á og það er verslun N1 í Eyjum, en hún er lokuð um helgar.
„Við viljum ekki sjá það,“ sagði Sveinn Magnússon á Kletti við Strandveg spurður um Fréttablaðið. Hann sagði að kaupmenn í Eyjum sættu sig ekki við þá mismunun að vera gert að selja blaðið á meðan því væri dreift frítt á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og víðar. „Ef þeir myndu selja blaðið alls staðar myndum við líka selja það – alveg klárlega. Við seljum bara Moggann í staðinn,“ sagði Sveinn.
Kaupmenn í Eyjum voru einnig óánægðir með að þess var krafist að þeir borguðu öll eintök Fréttablaðsins sem þeim yrðu send, óháð því hvort þau seldust eða ekki. Þeir sögðu þetta vera ólíkt útgáfu allra annarra blaða og tímarita þar sem væri skilaréttur á óseldum eintökum.