Búast má við mjög slæmu ferðaveðri um norðvestanvert landið á morgun, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Þá er búið að gefa út viðvörun en búist er við stormi á Vestfjörðum á morgun.
Veðurstofan spáir norðan 8-15 metrum á sekúndu og éljum á landinu norðanverðu. Skýjað verður með köflum syðra og dálítil él sums staðar sunnan- og suðvestanlands fram undir kvöld. Gengur í norðaustan 18-23 metra á sekúndu á Vestfjörðum á morgun, en hægari annars staðar, einkum austantil. Snjókoma eða él fyrir norðan, en bjart syðra.
Frost víða 4 til 14 stig, kaldast til landsins, en dregur úr frosti á morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru vegir auðir á Suður- og Suðausturlandi.
Á Vesturlandi eru hálkublettir á Holtavörðuheiði, Gilsfirði og í Svínadal.
Á Vestfjörðum er snjóþekja í Ísafjarðardjúpi, hálkublettir og
éljagangur er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Hálkublettir eru
á Klettshálsi, Kleifaheiði, Mikladal og á Hálfdán. Einnig eru
hálkublettir á Gemlufallsheiði og í Önundarfirði, snjóþekja og
skafrenningur er í Súgandafirði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á
Hrafnseyrarheiði og stendur mokstur þar yfir og verður það síðasta
mokstursferð fyrir jól. Ófært er í Árneshrepp.
Á Norðurlandi er hálka í Vatnsskarði, Víkurskarð og á
Mývatnsheiði. Hálkublettir á Þverárfjalli og á Öxnadalsheiði en
snjóþekja á Siglufjarðarvegi, á milli Akureyrar og Ólafsfjarðar og frá
Húsavík að Laugum. Einhver éljagangur eða snjókoma er á þessu svæði.
Á Norðausturlandi er snjóþekja, hálkublettir og éljagangur.
Á Austurlandi eru víða hálkublettir og snjóþekja. Snjóþekja og
éljagangur er á Fjarðarheiði. Hálkublettir eru í Oddskarði og Fagradal
en þar er einnig snjókoma. Einhver hálka er með ströndinni.