Vodkaflaskan hækkað um 1.400 kr. á ári

eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

FLASKA af algengri tegund af vodka verður liðlega 1.400 kr. dýrari um áramót en fyrir ári og samsvarar hækkunin 42%. Á þessu tímabili hefur áfengi hækkað þrisvar vegna hækkunar á áfengisgjaldi ríkisins. Rauðvín hækkar heldur minna, eða um 33-35% en mun minni hækkanir hafa orðið á bjór.

Alþingi samþykkti í vikunni að hækka áfengis- og tóbaksgjald um 10%. Áður hafði áfengisgjaldið hækkað um 12,5% í desember í fyrra og áfengis- og tóbaksgjald hækkaði um 15% sl. vor.

Hækkun á tóbaksgjaldinu nú um áramótin og hækkun á virðisaukaskatti úr 24,5% í 25,5% leiðir til 7,5% hækkunar á útsöluverði vindlinga, samkvæmt útreikningum ÁTVR. Þannig mun karton af sígarettum hækka úr 6.508 kr. í 6.996 krónur um áramót.

Þegar litið er á hækkun áfengis síðustu tólf mánuði, breytingar á virðisaukaskatti og hugsanlegt verð frá áramótum, samkvæmt áætlun ÁTVR, sést að mesta hækkunin er á vodkaflöskunni. Verð hennar hækkar um rúmar 1.400 krónur á þessum tíma sem svarar til tæplega 42% hækkunar. Rauðvínskassinn hefur hækkað um 1.381 krónur sem er liðlega 35% hækkun og flaska af algengu rauðvíni sem kostaði tæpar 1.500 krónur fyrir ári mun kosta tæpar 2.000 krónur á nýju ári.

Bjórdós af algengri tegund hefur hins vegar hækkað minna, eða um 47 krónur á árinu, eða um tæp 18%.

Í hnotskurn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert