Hagkaup hækkaði vöruverð á tugum vara í sérvörudeild sinni í gær, frá nær 5% og upp í tæp 54% samkvæmt blaði sem viðskiptavinur rakst á í Kringlunni í gær og sendi á Morgunblaðið. Þar virðast valdar úr þær vörur í sérvöru sem er algengt að fólk vanti strax á síðustu metrum jólaundirbúningsins, svo sem límband, merkimiða og hnotur af gjafaböndum. Einnig eru vinsælir geisladiskar og DVD myndir hækkaðar.
Sem dæmi þá hækkar límband úr kr. 225 í kr. 285 eða um tæp 27%, jólamerkilímmiðar um rúm 10%. Geisladiskurinn Oft spurði ég mömmu, hækkar um heilar 700 krónur og fer úr kr. 1299 í kr. 1999 sem er nær 54% hækkun. Eina varan sem lækkar samkvæmt þessum lista er DVD diskurinn Út og suður 5 en hann lækkar um rétt rúm 9%.
Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa segir leiðinlegt að blað þar sem fleiri verð séu að fara upp en niður hafi borist út en hins vegar megi ekki gleyma því að margar vörur séu að lækka og tekur þar dæmi um afslætti af jólaskrauti og sparifatnaði fyrir konur og börn. Hann segir stöðugt verið að breyta vöruverði í takt við markaðinn. Það sé gert daglega allan ársins hring, sérstaklega á öllum smásölumarkaðinum í desember. „Ef verð hækkar þá hækkum við og ef það lækkar þá lækkum við“
Alþekkt að verð séu hækkuð fyrir jól
Ester Sveinbjarnardóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir alþekkt að verslanir hækki vöruverð síðustu daga og vikur fyrir jól. Síðustu vikuna fyrir jól séu verslanir að hækka vöruverð fram á síðustu stundu. Menn geti hagað verðlagningu eins og þeir vilja þar sem hún sé frjáls. Það séu ekki allir sem átti sig á því en neytendur virðist hins vegar meira vakandi fyrir þessu en áður.
Þegar Gunnari er bent er á að samkvæmt verðbreytingarblaðinu, sé þarna sé um að ræða vöru sem virðist þannig að verðvitund fólks sé lítil, þar sem fólk grípi hana á hlaupum, segir hann ákveðna verðstefnu í gangi innan Hagkaupa. „Við erum með alveg hreina verðstefnu í ritföngum, þar erum við erum með verð undir sérverslunum og meðvitað yfir lágvöruverðsverslunum. Í bókum, skemmtiefni og þvílíku að þá miðum við við lægsta á markaðinum og bókabúðirnar. Þannig að við reynum að staðsetja okkur á milli þessara aðila og til þess að halda því gerum við verðkannanir daglega.“
Gunnar segir Hagkaup vera með um 50.000 vörunúmer og yfir 6.000 verðbreytingar hafi verið gerðar í desember bæði upp og niður í umræddri verslun einni, þar á meðal lækkað verð á 1.500 vörunúmerum af jólaskrauti.
Þegar spurt er hvort samsvarandi hækkanir og sjást á verðbreytingarblaðinu, séu á matvöru í desember, segir Gunnar að verðbreytingar þar séu gerðar í takt við markaðinn í samræmi við þá verðstefnu sem Hagkaup hafi markað sér. Það sé hins vegar ljóst að kaupmenn séu ekki að ná skila gengishækkunum út í verðlagið og álagning verslunar sé í raun lægri í ár en hún var í fyrra. Það hjálpi þó smásölu á Íslandi að fleiri versli heima en áður.
Þegar rætt er um verðbreytingar á einstökum vörum, segir Ester mjög þekkt að geisladiskar hafi hækkað upp í fullt verð rétt fyrir jól. Þá sé fólk á síðustu stundu að kaupa og þurfi að fá vöruna og geri ekki eins mikinn verðsamanburð. Sama gildi um aðrar vörur.
Ester vill ekki ganga svo langt að segja verðhækkanirnar fari gegn góðum viðskiptaháttum. Það sé hins vegar hlutverk Verðlagseftirlitsins að upplýsa neytendur um á hvaða verðbili verslanirnar eru svo þeir geti sjálfir lagt mat á hvar þeir vilji versla.