Bresk lögmannsstofa svarar Steingrími

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Mischon De Reya hefur nú svarað …
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Mischon De Reya hefur nú svarað ávirðingum ráðherra. Heiðar Kristjánsson

Breska lögmannsstofan Mishcon De Reya hefur sent fjárlaganefnd bréf vegna ummæla Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, um álit lögmannstofunnar um frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunni.

Í fyrsta lið svarbréfs Mishcon kemur fram að við vinnslu á álitsgerð sinni, sem skilað var til fjárlaganefndar 19. desember, hafi lögmannsstofan tekið mið af ákveðnum upplýsingum sem ekki eru opinberar. Mishcon segist hafa hvatt íslensk stjórnvöld til að létta trúnaði af þeim gögnum, en stjórnvöld hafi ekki orðið við því.

Jafnframt segir lögmannsstofan að þeir fundið fyrir engu öðru en þakkæti frá fjármálaráðuneytinu og sérstaklega samninganefnd Icesave eftir að vinnu við álitsgerðinni hafi verið lokið. Því sæti furðu að vinna Mishcon sæti nú gagnrýni fjármálaráðherra.

Mishcon de Reya segir í bréfi sínu að tekið hafi verið tillit til allra hliðarsamkomulaga tengdum Icesave-málinu við vinnslu álitsgerðarinnar, en öðru hafði verið haldið fram á stjórnarheimilinu. En Steingrímur J. Sigfússon sagði í Morgunblaðinu 22. desember síðastliðinn að álit Mishcon hafi ekki tekið tillit til allra hliðarsamninga í málinu. Þetta segir breska lögmannsstofan rangt.

Í bréfi Mischon De Reya segir að rangt sé sem sagt er, að betra sé að afgreiða Icesave-málið heldur en að slá því á frest. Hvort betra sé að afgreiða málið hið fyrsta eða taka til ítarlegrar skoðunar öll þau gögn sem liggja til grundvallar málinu, segir Mishcon að sé ekki þeirra ákvörðun að taka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka