Eldur kviknaði í sjónvarpi í barnaherbergi íbúðarhúsi við Kálfhóla á Selfossi skömmu fyrir kl. 10 í morgun. Að sögn lögreglu var snarræði húsbónda heimilisins því að þakka að ekki varð stórbruni, en hann tók upp logandi sjónvarpið og kom því út úr húsinu.
Slökkvi- sjúkra- og lögreglulið fór þegar á staðinn en þá var sjónvarpið komið út og enginn eldur í húsinu. Maðurinn brenndist á hendi og hlaut aðhlynningu sjúkraflutningamanna. Slökkviliðsmenn reykræstu húsið. og var tjón á íbúðinni einungis út frá reyk.
Í morgun kom einnig upp eldur í bifreið við hringtorgið í Hveragerði. Olíurör sprakk og frussaðist olía yfir vél bílsins. Eldurinn var hinsvegar minniháttar og gekk greiðlega að slökkva og er bíllinn að mestu óskemmdur.