Íslenskur læknir við Barnaspítala Fíladelfíu í Bandaríkjunum Hákon Hákonarson, hefur ásamt fleiri vísindamönnum fundið nýtt astmagen en uppgötvunin gæti m.a. nýst í meðferð á barnaastma og fleiri sjúkdómum. Frá rannsókn þeirra er greint í tímaritinu New England Journal of Medicine.
Genið sem Hákon og félagar einangruðu, er nefnist DENND1B á svonefndum litningi 1q31, er talið mjög áhugavert þar sem afurð þess stýrir því ferli sem fer af stað þegar ofnæmisvaki (e. allergen) kemst inn í líkamann, annaðhvort í gegnum öndunarveg, með fæðu eða gegnum húð.
„Breytileikinn í geninu sem við fundum hefur áhrif á framleiðslu frumuefna (e. cytokína), en ónæmisfrumur frá einstaklingum sem hafa breytileikann mynda mun meira af þessum boðefnum í samanburði við þá sem hafa eðlilegt gen. Þetta eru þær frumur sem sjá um að höndla alla ofnæmisvaka, vírusa og aðra slíka aðskotahluti sem berast inn í líkaman sem aftur geta framkallað astmakast hjá þeim sem hafa ákveðna erfðabreytileika," segir Hákon í samtali við mbl.is.
Eykur líkur á öðrum ofnæmissjúkdómum
Erfðabreytileikinn sem Hákon og félagar fundu raskar jafnvægi ónæmiskerfisins með þeim hætti að líkur aukast á astma og ofnæmi. Hákon segir það athyglisvert að líkurnar á astma hjá Evrópubúum aukist um 50% en líkur hjá blökkumönnum í Ameríku aukist um 100%, en astmi er bæði algengari og alvarlegri sjúkdómur hjá blökkumönnum.
„Við höfum nýverið fundið að þetta gen eykur einnig líkur á öðrum ofnæmis- og ónæmistengdum sjúkdómum og það verður mjög spennandi að taka þessa vinnu áfram og þróa í framtíðinni nýja meðferðarmöguleika sem byggja á því að hemja afurð gensins," segir Hákon en lyf sem notuð eru til að meðhöndla astma í dag hafa lítið breyst í áratugi og sum þeirra geta valdið alvarlegum aukaverkunum.