Samkvæmt upplýsingum af skuldatryggingamarkaðnum og útreikningum erlends greiningarfyrirtækis eru fjórðungslíkur á greiðslufalli ríkisins. Þetta er umtalsvert hærra en þær líkur sem IFS-greining nefnir í skýrslu sem unnin var fyrir fjárlaganefnd Alþingis.
Samkvæmt áhættumati sem IFS vann eru um það bil 10% líkur á greiðslufalli ríkissjóðs. Það byggist á forsendum um efnahagsþróun á Íslandi, en fram kemur í mati IFS að um það bil 5% líkur séu á meira en 15% samdrætti í verðmæti útflutningsafurða landsins.
Útflutningur hefur minnkað um 30% á fyrstu níu mánuðum þessa árs, og jafnframt segir að einhvern tíma muni taka fyrir íslenska hagkerfið að bregðast við lægra raungengi með því að tileinka sér fjölbreyttari atvinnuvegi.
Áhættumat IFS byggist á því að allar gjaldeyristekjur fari í að greiða niður erlendar skuldbindingar. „Gjaldeyristekjur munu ekki nægja til að greiða niður erlend lán fyrstu árin eftir að afborganir Icesave-samningsins hefjast og myndi erlend skuldastaða fara vaxandi þrátt fyrir að allar gjaldeyristekjur væru nýttar til að greiða af erlendum lánum,“ segja sérfræðingar IFS. Í mati IFS er gert ráð fyrir 90% endurheimtum á eignum Landsbankans.