Jólaverslunin hefur gengið vel á síðustu metrunum og betur en menn þorðu að vona að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu.
„Við tókum rúntinn á þessu í gær og það er sama í hvaða geira það er, allir eru kátir og allir ánægðir," segir Andrés. „Það virðist vera þannig að þótt það sé kreppa og hart í ári þá heldur fólk í þessar hefðir að gefa ástvinum sínum gjafir og gera vel við sig í mat og drykk, en gjafirnar eru hófstilltari í ár.“
Þeir kaupmenn sem Andrés hefur rætt við segja margir að meira sé keypt af millidýrum gjöfum í ár en hefur verið. Greinilegt er því að þótt fólk hafi minna á milli handanna og kaupmáttur sé rýrari hefur gjafmildin ekki rýrnað. „Þetta er allt saman í takt við tíðarandann og allt gott um það að segja," segir Andrés.
Verslanir eru víða opnar til klukkan 13:00 í dag og því enn tæpar tvær klukkustundir til stefnu fyrir þá sem eiga eftir að redda því sem redda þarf fyrir jólin.