Það besta fái að ráða

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti

„Hversu miklu betri yrði nú ekki heimur okkar, sá litli fjölskyldu- og vinaheimur og sá stóri allur, ef það besta sem býr í hverju einstöku fengi að ráða. Svo margt gott hefur Guð fólgið í sálu og gerð hvers einasta manns. Fái það að þroskast og glæðast dag frá degi verður maður betri og mannlegt líf allt," sagði Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur m.a. í predikun sinni í aftansöng Dómkirkjunnar í kvöld.

Hjálmar sagði að Kristur hefði komið til að vinna þetta verk. „Hann fæddist til að uppræta hið illa svo að lífið fengi að blómstra eins og Guð stofnaði til með sköpun heimsins. Hann vill fá að taka hið illa og afleiðingar þess burtu úr okkar lífi. Þetta er fagnaðarerindi jólanna. Kristur er kominn til að frelsa frá því öllu sem andstætt er gleðinni, friðnum, hamingjunni. Lausnarinn vill gefa okkur jólin til frambúðar. Það er jólagjöfin hans," sagði Hjálmar.

Friður í stað asa og umstangs

Hann sagði ennfremur að Kristur hefði ekki komið til að þiggja gull, reykelsi eða myrru. Hann hefði ekki áhuga á jarðneskum eigum og efnum sjálfum sér til handa.

„Hann fæddist í heiminn til þess að taka við því sem sundrar og spillir og særir í veröld okkar, rýma því burtu sem rekur fleyga milli fólks í mannlegri tilveru. Hann kom til að þiggja þessar furðulegu gjafir, gallana, brestina, sektina, það sem hefur gert okkur erfitt fyrir," sagði Hjálmar m.a. í predikun sinni. Lokaorð hans voru:

„Héðan frá Dómkirkjunni í Reykjavík berast ykkur, kæru landsmenn, góðar óskir. Ég ætla að nota orð hins breska og breyska John Ruskins til að tjá þær óskir ykkur öllum: „Ég óska ykkur dálítils af ferskri gleði yfir fegurð og svolitlu meiri gleymsku á vonbrigði og dálitlu meira stolts yfir hrósi og örlitlu meiri friðar fyrir asa og umstangi – og svolitlu þéttari skjólveggjar gegn áhyggjum.” Það gefi Guð, í Jesú nafni. Gleðileg jól. Amen."

  Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir þjónaði til altaris við aftansönginn. Miðnæturguðþjónusta er í Dómkirkjunni  kl. 23.30 í kvöld þar sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup predikar.

sr. Hjálmar Jónsson
sr. Hjálmar Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert