Víða þungfært á Austurlandi og Vestfjörðum

Snjómoksturstæki eru nú víða að störfum á Austurlandi og Vestfjörðum.
Snjómoksturstæki eru nú víða að störfum á Austurlandi og Vestfjörðum. mbl.is

Á Austurlandi er nú þungfært um Möðrudalsöræfi og snjóþekja á flestum öðrum leiðum og stendur mokstur yfir, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Hálkublettir og snjókoma er á Fagradal, snjóþekja og snjókoma á Fjarðarheiði og hálka á Oddskarði.

Vegir eru auðir á Suður- og Suðausturlandi. Á Vesturlandi er einnig greiðfært víðast hvar, þó eru hálkublettir á Holtavörðuheiði og Svínadal.

Á Vestfjörðum er víða þæfingsfærð eða snjóþekja og stendur mokstur yfir. Ófært er um Klettsháls og ekki líkur á því að hann opnist í dag, segir Vegagerðin. Ófært er um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Ófært er norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi er greiðfært í Húnavatnssýslum en hálkublettir í kringum Blönduós, hálka og éljagangur á Vatnsskarði. Snjóþekja og snjókoma er á Þverárfjalli og öllum leiðum í kringum Sauðárkrók. Snjóþekja á Öxnadalsheiði og stendur mokstur yfir. Þæfingsfærð er á Hólasandi en snjóþekja á flest öllum leiðum á Norðausturlandi og stendur mokstur yfir.

Þjónusta Vegagerðarinnar um jól og áramót

Einungis á þeim leiðum sem hafa 7 daga þjónustu verður þjónusta á jóla- og nýársdag, en stefnt er að því að þá verði þessar leiðir almennt færar fyrir kl. 10. Á aðfangadag og gamlársdag er gert ráð fyrir þjónustu til kl. 14 en ef þörf krefur til kl. 17. Það á þó ekki við um lengstu leiðir svo sem á Djúpvegi frá Súðavík til Hólmavíkur, Vestfjarðarvegi austan Brjánslækjar, frá Mývatni til Egilsstaða og frá Höfn í Vík. Þar hættir þjónusta í síðasta lagi kl. 14.

Á annan í jólum verður þjónusta á öllum leiðum samkvæmt almennum snjómokstursreglum, segir í tilkynningu Vegagerðarinnar, en frekari upplýsingar eru veittar í síma 1777.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert