Eldur kom upp í báti sem lá við Ísafjarðarhöfn í morgun. Tekist hefur að ráða niðurlögum eldsins. Engin slys urðu á fólki, en talsvert tjón varð á brúarhúsi bátsins.
Tilkynnt var um eldinn fyrir hádegi og slökkvilið var kallað út. Hafnarstarfsmanni og lögreglunni á Ísafirði tókst þó að ráða niðurlögum eldsins, að sögn lögreglunnar á Ísafirði.
Færð er ekki góð í Ísafjarðardjúpi um þessar mundir. Vegur milli Flateyrar og Ísafjarðar hefur nú verið ruddur, en snjóflóð féll yfir veginn í nótt. Lögreglan á svæðinu hefur ekki þurft að aðstoða fólk vegna færðar. Óvissuástandi Almannavarna vegna snjóflóðahættu hefur jafnframt verið aflýst.