Öryggiseftirlit hefur verið hert á fjölmörgum flugvöllum í kjölfar þess að tilraun var gerð í gærkvöldi til að sprengja í lofti upp bandaríska farþegaflugvél. Í Leifsstöð verður eftirlit hert með flugi til Bandaríkjanna og geta aðgerðirnar leitt til einhverra tafa.
Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Leifsstöðvar, hvetur farþega sem eiga bókað flug til Bandaríkjanna til að vera fyrr á ferðinni en ella sökum aðgerðanna. Meðal annars verður leitað á farþegum og handfarangur skoðaður mjög vandlega.
Bandaríska flugöryggiseftirlitið (TCA) fór fram á að eftirlitið yrði hert og hefur verið farið að vilja þess á fjölmörgum flugvöllum, sérstaklega í Evrópu.