Aðeins tuttugu prósent fyrirtækja sem eru í viðskiptum hjá Íslandsbanka þurfa ekki á aðstoð að halda. Um helmingur fyrirtækja hafa nýtt sér úrræði sem boðið er upp á til að létta á skuldavanda og samkvæmt greiningu á lánasafni þarf helmingur fyrirtækja aðstoð. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Haft var eftir Má Mássyni, upplýsingafulltrúa bankans, fyrirtækin þurfi að minnka fjármagnskostnað, fjárhagslega endurskipulagningu og laga skuldastöðu sína. Einnig kom fram að eftir áramót verði fyrirtækjum í atvinnurekstri með lán í erlendri mynt, boðið úrræði til að lækka höfuðstólinn.