Allt stefnir í að unnið verði úr rúmlega 5.100 tonnum af hráefni í landvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í Hnífsdal og á Ísafirði á þessu ári. Í fréttatilkynningu rá LÍÚ segir að það veki athygli að fimmtungur hráefnisins kemur úr þorskeldi, sem fyrirtækið hefur stundað undanfarin ár. Þetta hlutfall hefur að sögn Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, aldrei verið hærra.
„Þetta er að sjálfsögðu ánægjulegur áfangi því eldisþorskurinn hefur staðið undir fimmta hverjum vinnudegi hjá okkur. Þá er það ekki síður ánægjulegt frá okkar bæjardyrum séð, að ekki hefur fallið niður dagur í landvinnslunni á árinu sem er að líða," segir Einar Valur. Hann segir að fara þurfi a.m.k. áratug aftur í tímann til að finna dæmi um meira magn hráefnis til vinnslunnar en á þessu ári.
Í tilkynningu LÍÚ segir hinsvegar að góður árangur í þorskeldinu nægi þó engan veginn til þess að vega upp boðaðan niðurskurð í veiðiheimildum á bolfiski á yfirstandandi fiskveiðiári. Einar Valur segir að samkvæmt útgefnum kvóta muni veiðiheimildir fyrirtækisins verða um 1400 tonnum minni á þessu fiskveiðiári en á því síðasta.
„Ofan á þá óvissu sem þessari skerðingu fylgir bætist nú óvissan í sjávarbyggðum landsins vegna áforma ríkisstjórnarinnar um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi. Samkvæmt þeim hugmyndum á að fyrna aflaheimildir um 5% á ári og áætlað er að hefja þær aðgerðir þann 1. september næstkomandi," segir Einar Valur.