Hefðbundin erill var hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nótt og líkt og við var að búast mikil ölvun í miðborg Reykjavíkur. Að sögn varðstjóra var nokkuð um pústra og almennt vesen sem fylgir of mikilli ölvun. Skemmtanahald stóð lengi og í sumum tilvikum enn, að sögn lögreglu.
Fjórum ökumönnum var gert að hætta akstri vegna gruns um ölvun undir stýri. Einum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Allt eins má búast við að fleiri bætist í hópinn þegar líða tekur á morgun.
Keimlíkt víða á landinu
Sömu sögu var að heyra frá varðstjórum lögregluembætta víðs vegar af
landinu. Alls staðar var skemmtanahald með meira móti og hefðbundin
verkefni sem fylgdu því. Á Selfossi gisti einn fangageymslur vegna
líkamsárásar en sá réðst að dyraverði í bænum.
Að sögn
lögreglunnar á Selfossi flokkast árásin sem minniháttar og meiðslin
eftir því. Hins vegar hafi árásarmaðurinn verið afar æstur og erfiður
og því ekki annað að gera en að „kæla“ hann.
Á Suðurnesjum gekk
nóttin vel fyrir sig. Nokkur útköll voru vegna hávaða í heimahúsum auk
þess sem nokkur hávaði var í kringum skemmtistaði.