117 milljóna skuld - 296 þúsunda tekjur

Hæstiréttur hafnaði nýlega kröfu manns um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar. Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að heildarskuldir mannsins séu 117 milljónir króna en mánaðartekjur hans tæplega 296 þúsund krónur eða 3,55 milljónir króna á ári.

Fram kemur í dómum Hæstaréttar að af 117 milljóna króna skuldum mannsins séu 19 milljónir í vanskilum. Maðurinn, sem er 75% öryrki eftir bílslys, keypti íbúð fyrir 39 milljónir króna árið 2006 og tók þá gjaldeyrislán en íbúðin er nú metin á 34 milljónir. Þá keypti maðurinn bíl fyrir 4,1 milljón árið 2006, einnig með gjaldeyrisláni. Lánin hækkuðu verulega þegar gengi krónunnar hrundi á síðasta ári.

Maðurinn óskaði annars vegar eftir að fá að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar og hins vegar að fá heimild til tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna. Í dómum Hæstaréttar kemur fram, að mánaðarleg útgjöld mannsins til framfærslu séu um 158 þúsund krónur, hann greiði 110 þúsund krónur vegna húsnæðis. Tillaga mannsins að nauðasamningum var að hann greiddi greitt 36 þúsund krónur á mánuði upp í skuldir sínar næstu þrjú árin en að þeim tíma liðnum yrðu allar samningskröfur felldar niður.

Kaupþing banki hafnaði ósk mannsins um greiðsluaðlögun og þá niðurstöðu staðfestu Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur. Segir í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við greiðslugetu hans þegar hann stofnaði til fjárskuldbindinganna. Hæstiréttur segir, að ástæða sé til að draga verulega í efa að maðurinn myndi efna nauðasamning vegna fjárhagsstöðu hans.

Í dómum héraðsdóms kemur fram, að maðurinn fékk m.a. lán hjá Kaupþingi, Avant, Lýsingu og Íslandsbanka. Þá eru tilgreind þrjú skuldabréf til Sparisjóðs Mýrasýslu, eitt til Íslandsbanka og eitt til Málsefnis ehf. auk þess sem fjárnám hvílir á fasteign mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka