Sú skemmtun þjóðarinnar að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld er nánast helmingi dýrari nú en fyrir tveimur árum. Sprenging hefur orðið í verði flugelda, þó að þeir kosti að vísu ámóta mikið nú og fyrir síðustu áramót.
„Verðbreytingarnar í fyrra voru mjög miklar en þá tókum við þær á okkur að nokkru leyti. Því skilaði flugeldasalan okkur sáralitlu. Við erum hins vegar að vonast til að ná jafnvægi í þessu í ár, enda er innkaupsverðið nú lægra en í fyrra,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Troðni er vinsæll fjölskyldupakki með flugeldum sem björgunarsveitirnar bjóða og kostar í ár 11.900. Fyrir tveimur árum kostaði þessi pakkning hins vegar 6.300 kr. og er hækkunin 89%.
Knattspyrnudeild KR er umsvifamikil í flugeldasölu. Þar er boðið upp á svonefndan Bronspakka sem nú kostar 6.500 kr. sem er 124% hækkun frá 2007 þegar pakkningin fékkst á 2.900 kr. Eigi að síður er innihald pakkans nánast það sama, að sögn Lúðvíks Georgssonar hjá KR-flugeldum.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið um sextíu aðilum leyfi til flugeldasölu fyrir þessi áramót. Flest leyfanna hafa verið gefin út til björgunarsveita, en einnig karlaklúbba, einkafyrirtækja og íþróttafélaga.