Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, að maður, sem olli mikilli hættu með ofsaakstri um götur í Kópavogi 20. desember, skuli afplána 225 daga eftirstöðvar sem hann átti eftir af eldri dómi.
Maðurinn var í mars dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Hann fékk síðan reynslulausn í september þegar hann hafði afplánað helming dómsins.
Í úrskurði héraðsdóms kemur fram, að maðurinn eigi að baki töluverðan sakarferil og hafi ítrekað á undanförnum árum hlotið dóma vegna auðgunarbrota, nytjastuldar, umferðar- og fíkniefnalagabrota. Á síðustu 2 árum hafi hann hlotið 4 fangelsisdóma, ávallt fengið reynslulausn en þrátt fyrir það byrjað í afbrotum nánast samstundis eftir að hann hlaut reynslulausn.
Þá kemur fram, að maðurinn sé grunaður um að hafa framið ýmis afbrot, þar á meðal bílþjófnaði og aðra þjófnaði frá því hann var látinn laus í september. Ljóst sé, að hann sé grunaður um brot sem varða allt að 6 ára fangelsi.
Í lögum um fullnustu refsinga segir, að fangelsismálastofnun geti veitt fanga reynslulausn þegar hann hefur afplánað 2/3 hluta refsingar. Þá sé heimilt að veita þeim fanga, sem ekki afplánar refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn.
Í lögunum segir jafnframt, að fanga, sem telst vera síbrotamaður eða sem ítrekað hafi verið veitt lausn til reynslu og rofið skilyrði hennar, skuli ekki veitt reynslulausn á ný nema sérstakar ástæður mæli með.