Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé jafnvel að hætta í embætti um áramótin og muni tilkynna það á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á gamlársdag. Samstarfsmenn Jóhönnu sögðu við Morgunblaðið í gær að ekkert væri hæft í þessum orðrómi, og hið sama sagði hún sjálf í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
Jafnframt er það talið mjög ólíklegt að nokkrar hrókeringar aðrar verði á ráðherraembættum um áramótin en miðað við áform ríkisstjórnarinnar um frekari sameiningar ráðuneyta og tilflutning verkefna þeirra gæti ráðherrum átt eftir að fækka á komandi ári. Til stóð að leggja fram frumvarp á Alþingi fyrir áramót um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins annars vegar og iðnaðarráðuneytisins hins vegar í eitt atvinnuvegaráðuneyti, en af því verður ekki fyrr en eftir áramót.
Ríkisstjórnin hefur áður boðað að fækka beri ráðuneytum úr 12 í 9. Auk sameiningar í atvinnuvegaráðuneyti stendur til að sameina félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið í nýtt velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti verði til við samruna dóms- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis en tvö þau síðast töldu fengu þessi heiti nýverið með flutningi verkefna milli ráðuneyta. bjb@mbl.is