Ökuníðingi sem olli mikilli almannahættu með aksturslagi sínu 20. desember sl. var veitt reynslulausn 16. september. Frá þeim tíma hafði hann tekið sex bifreiðar ófrjálsri hendi.
Hæstiréttur staðfesti á Þorláksmessu að maðurinn, sem er þrítugur, skyldi afplána 225 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar en hann var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi 20. mars sl. Honum var veitt reynslulausn 16. september og nánast samstundis hóf hann að stunda afbrot. Meðal annars viðurkenndi hann hjá lögreglu að hafa stolið þremur bílum og brotist inn í einn. Þrátt fyrir það var honum ávallt sleppt.
Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil og var í október 2007 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi. Tveimur mánuðum síðar var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi. Hann rauf skilorðið með brotum sínum. Hinn 9. maí 2008 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi en um hegningarauka var að ræða. Degi síðar var honum veitt reynslulausn í eitt ár. Þá átti hann eftir að afplána 137 daga.
Maðurinn var eins og áður segir dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi 20. mars sl. en veitt reynslulausn 16. september.
Í lögum um fullnustu refsinga eru ákvæði um reynslulausn. Þar segir m.a.: „Fanga, sem telst vera síbrotamaður eða sem ítrekað hefur verið veitt lausn til reynslu og rofið skilyrði hennar, skal ekki veitt reynslulausn á ný nema sérstakar ástæður mæli með.“
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir eðlilegar ástæður liggja að baki því að viðkomandi einstaklingur hafi fengið reynslulausn þrátt fyrir að rjúfa skilorð áður. Hann hafi aðeins setið inni í tvö skipti og geti því ekki talist síbrotamaður samkvæmt skilningi laganna. Hann segir skilgreininguna ekki endilega þá sömu og hjá dómstólum, auk þess sem meta þurfi aðra þætti, s.s. hegðun í afplánun, aldur viðkomandi o.s.frv.
Maðurinn ók á móti umferð á mikilli ferð og raskaði þannig umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu vegfarenda á akstursleiðinni í augljósan háska, líkt og segir í greinargerð lögreglustjóra. Hann var undir áhrifum vímuefna.