Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í fréttum Útvarpsins að það hafi komið sér á óvart að Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, hafi verið tilnefndur í stjórn Íslandsbanka.
Steingrímur sagði á Alþingi í gær, að hann hefði ekkert haft að gera með tilefningu stjórnarmanna í væntanlega stjórn Íslandsbanka. Eigendur bankans, kröfuhafar gamla Glitnis, skipi sex menn í stjórnina og Bankasýsla ríkisins tilnefni fulltrúa ríkisins.
Beðið er eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins á tilnefningunum og því að eignarhaldsfélag Glitnis, ISB Holding, fari með virkan eignarhlut í Íslandsbanka. ISB Holding hefur tilnefnt bæði Árna og Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins og fyrrverandi varaformann stjórnar Seðlabankans. Jón hefur einnig verið formaður viðræðunefndar ríkisins vegna erlendra lána.
Steingrímur sagði við Útvarpið að tilnefning Árna komi sér á óvart. Hann hafi talið sig hafa ástæðu til að ætla að það yrði almennt ekki þannig að skilanefndarmenn sjálfir sætu í stjórnum heldur yrðu fengnir til þess utanaðkomandi menn. Það sé hinsvegar eigendanna að tilnefna sína menn og Fjármálaeftirlitið fjalli síðan um það að sú skipan mála sé í lagi.
Þá sagði Steingrímur að eigendur Glitnis verði sjálfir að útskýra hvers vegna þeir leita til Jóns Sigurðssonar.