Stjórn Ungra vinstri grænna (UVG) lýsir yfir stuðningi við frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna og hvetur til þess að frumvarpið verði samþykkt án frekari tafa. Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar UVG.
Ennfremur segir í yfirlýsingu stjórnar UVG:
„Öllum er ljóst hversu alvarlegt Icesave-málið er fyrir íslensku þjóðina. Aftur á móti gera allt of fáir sér grein fyrir því að ekki er hægt að leysa málið án þess að þjóðin beri skaða af. Því lengur sem málið stendur óafgreitt þeim mun meiri verður skaðinn.
Vert er að minna á það að fyrri ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins bera fullkomna ábyrgð á einkavæðingu bankanna og því algjöra eftirlits- og aðgerðaleysi sem varð jarðvegur stærstu fjárhagslegu hamfara Íslandssögunnar.
Það hefur því verið afar dapurt að horfa uppá óábyrgan málflutning Sjálfstæðismanna að undanförnu þess efnis að fella frumvarpið á Alþingi og leitast við að ná betri samningi.
Með þessari tillögu notfæra Sjálfstæðismenn sér eðlilega óánægju almennings með að þurfa að greiða fyrir Icesave-reikningana til þess að klekkja á ríkisstjórninni en hún hefur aftur á móti ekkert með raunhæfa valkosti í stöðunni að gera.
Stjórn Ungra vinstri grænna hvetur alþingismenn til þess að horfast í augu við vandamálin og taka á þeim í stað þess að stinga höfðinu í sandinn. Það er orðið tímabært að afgreiða Icesave-málið svo þjóðin og fulltrúar hennar á Alþingi geti farið að einbeita sér alfarið að því að byggja upp betra samfélag.“