Uppnám á þingi vegna skjala

Kristján Þór Júlíusson í ræðustóli Alþingis í kvöld.
Kristján Þór Júlíusson í ræðustóli Alþingis í kvöld. mbl.is/Ómar

Uppnám er á Alþingi vegna þeirra skjala, sem fjárlaganefnd bárust frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya í kvöld. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagðist ekki gera ráð fyrir því að fram fari atkvæðagreiðsla um Icesave-fumvarpið á morgun í ljósi þess, að boðað væri í bréfi lögmannsstofunnar að von væri á frekari gögnum, sem Alþingi myndi vilja kynna sér áður en tekin sé endanleg ákvörðun um Icesave-frumvarpið, þar sem þau geti varpað frekara ljósi á stöðu málsins.

Sigmundur Davíð sagði, að í bréfi lögmannsstofunnar komi fram að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði í vor fengið sérstaka kynningu á skýrslu sem Mishcon de Reya tók þá saman. Tekið sé hins vegar fram, að úr þeirri kynningu hefðu verið fjarlægðar upplýsingar sem Svavar Gestsson, formaður íslensku samninganefndarinnar, hafi ekki viljað að fylgdu með í pakkanum til utanríkisráðherra.

Um var að ræða það mat lögmannsstofunnar að málshöfðun á hendur breska fjármálaeftirlitinu gæti styrkt stöðu Íslands í viðræðum um Icesave-málið.

„Ég held að það sé óhætt að segja, að ríkisstjórn í hvaða Evrópulandi sem er og hefði verið staðin að því að fela slíkar upplýsingar, eftir að hafa verið marg-, marg-, marginnt eftir því hvort örugglega væri allt komið fram sem lýtur að þessum hliðum málsins, sæti ekki lengi," sagði Sigmundur Davíð.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði að það væri óheppilegt að gögn komi fram svo seint í umfjöllun máls og raun beri vitni, og það sé skiljanlegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar telji sig þurfa tíma til að skoða þau.

Össur sagðist ekki hafa séð þessi gögn áður en hlaupið á þeim í kvöld, bæði bréf Mishcon de Reya og þau kynningargögn, sem lögmannsstofan segi að hafi átt að láta Össur sjá í Lundúnum 31. mars en ekki hafi verið gert.

Í einum kafla þeirrar kynningar sé fjallað um möguleika sem íslensk stjórnvöld kynnu að hafa haft til málsvarnar gegn Bretum, aðallega vegna setningar hryðjuverkalaganna. Sagði Össur að þessi kafli fjallaði aðallega um möguleika á að fara með mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka