Lögfræðistofan Mishcon de Reya segist í yfirlýsingu til fjárlaganefndar Alþingis standa við það sem kom fram í bréfi til nefndarinnar í gær. Í yfirlýsingunni segist lögfræðistofan vera tilbúin til að leggja fram eiðsvarnar yfirlýsingar ef þess er óskað. Fram kemur einnig, að einn eigandi stofunnar átti fund með Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, í Lundúnum 31. mars.
Í yfirlýsingunni, sem Mike Stubbs, einn eigenda lögfræðistofunnar skrifar undir, segir m.a. í þýðingu mbl.is: „Okkur skilst, að Svavar Gestsson, sendiherra, hafi í dag gefið yfirlýsingu þar sem hann er sagður hafna bréfi okkar til fjárlaganefndar þar sem við ræðum um það sem gerðist á skrifstofum Mishcon de Reya 26. mars 2009. Við höfum farið yfir yfirlýsinguna frá hr. Gestsson og sjáum, að þar virðist vera vísað á bug málum, sem við tókum ekki upp í bréfi okkar.
Yfirlýsing hr. Gestsson virðist snúast um hvort hann hafi treyst utanríkisráðherranum fyrir tilteknum upplýsingum frekar en um það sem í raun gerðist á skrifstofum okkar 26. mars 2009. Þess vegna lítum við ekki svo á, að í yfirlýsingu hr. Gestsson sé verið að vísa á bug því sem gerðist 26. mars 2009. Mishcon de Reya stendur við þá atburðalýsingu sem veitt er í bréfi okkar í gær til fjárlaganefndar," segir í yfirlýsingunni.
Þar er síðan fjallað um fundinn 26. mars. „Á þeim fundi fór hr. Gestsson, sem skjólstæðingur okkar, fram á að tilteknar upplýsingar yrðu fjarlægðar úr breyttri kynningu sem átti að undirbúa fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, áður en hann hitti starfsbróður sinn, David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands. Við tökum eftir því að í yfirlýsingu hr. Gestsson er ekki sagt, að hann hafi ekki beðið Mishcon að fjarlægja tilteknar upplýsingar úr hinni breyttu kynningu fyrir utanríkisráðherrann, (dagsettri 29. mars). Við vitum að sjálfsögðu ekki hvort hr. Gestsson deildi þessum tilteknu upplýsingum síðar með utanríkisráðherranum eða einhverjum öðrum," segir í yfirlýsingu lögfræðistofunnar.
Fram kemur í bréfinu, að fundinn 26. mars sátu, auk Svavars, þau Huginn Þorsteinsson, fjármálaráðuneyti, Áslaug Árnadóttir, fulltrúi Tryggingasjóðs innistæðueigenda, Mike Stubbs, einn eigandi Mishcon de Reya, John Young, lögmaður hjá Mishcon de Reya, Gunnlaugur Erlendsson, lögmaður og Rebecca Stubbs, lögmaður hjá Maitland Chambers.
Þá kemur fram í yfirlýsingunni að, 31. mars hafi hin breytta kynning verið kynnt fyrir Össuri á morgunverðarfundi í Rib Room í Jumeria Carlton Tower hótelinu í Lundúnum. Á þessum fundi hafi verið eftirtalin:
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra
Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra
Svavar Gestsson, formaður Icesave-nefndarinnar
Huginn Þorsteinsson, fjármálaráðuneyti
Mike Stubbs, einn eigenda Mishcon de Reya
Gunnlaugur Erlendsson, lögmaður.
Skömmu eftir þennan fund hafi utanríkisráðherra haldið til fundar við Miliband.
„Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að Icesave-málið er afar viðkvæmt. En við verðum að leggja á það áherslu, að sem lögmönnum ber okkur skylda til að vera hreinskilnir og skýrir gagnvart skjólstæðingum okkar. Ef Alþingi óskar eftir því að fá eiðsvarinn vitnisburð frá lögmönnum, sem sátu fundinn 26. mars 2009 þá er það okkur ánægja að útvega hann," segir í yfirlýsingunni.
Huginn Þorsteinsson hafði samband við mbl.is eftir að þessi frétt birtist og sagðist ekki hafa setið morgunverðarfundinn á Jumeria Carlton Tower hótelinu 31. mars 2009.