Ríkisendurskoðun hefur nú birt samræmdar upplýsingar um fjárframlög til Framsóknarflokksins, Reykjavíkurlistans og Samfylkingarinnar á tímabili 2002-2006 auk upplýsinga um framlög til aðalskrifstofa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Þá hefur stofnunin birt upplýsingar um framlög til frambjóðenda í prófkjöri/forvali vegna alþingiskosninganna 2007 og sveitarstjórnarkosninganna 2006 auk upplýsinga um framlög til frambjóðenda í formanns- og varaformannskjöri innan flokkanna á tímabilinu 2005-2009.
Í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun segir að upplýsingarnar séu birtar með samræmdum hætti samkvæmt lögum. Upplýsingarnar sem ber að birta fyrir hve stjórnmálasamtök og frambjóðendur þeirra eru eftirfarandi:
Heildstæðar upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka á tímabilinu 2002-2006 bárust frá Framsóknarflokknum, Reykjavíkurlistanum og Samfylkingunni. Jafnframt bárust upplýsingar um framlög til aðalskrifstofa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs auk nokkurra eininga sem tilheyra síðarnefnda flokknum. Ríkisendurskoðun segist ekki treysta sér ekki til þess að samræma upplýsingar um framlög til þessara tveggja flokka og eininga sem undir þá falla en birtir þær í þeirri mynd sem þær bárust. Stofnunin hefur ekki fengið upplýsingar um framlög til Frjálslynda flokksins.
Upplýsingar bárust frá samtals 195 frambjóðendum sem tóku þátt í prófkjöri/forvali vegna alþingiskosninganna 2007, sveitarstjórnarkosninganna 2006 og formanns- og varaformannskjöri innan flokkanna 2005-2009. Þar af skiluðu 38 frambjóðendur uppgjöri en 157 yfirlýsingu um að heildarfjárhæð framlaga hafi verið undir 300 þús.kr. Hafa ber í huga að í sumum tilvikum tók sami einstaklingur þátt í fleiri en einu kjöri á því tímabili sem hér um ræðir. Upplýsingar bárust frá frambjóðendum á vegum Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Í-listans á Ísafirði. Ekki bárust upplýsingar frá frambjóðendum á vegum Frjálslynda flokksins.
Í tengslum við söfnun þessara upplýsinga fór
Ríkisendurskoðun þess á leit við stjórnmálaflokkana að þeir upplýstu um hve
margir frambjóðendur á þeirra vegum tóku þátt í prófkjörum vegna
sveitarstjórnarkosninganna 2006 og alþingiskosninganna 2007. Upplýsingar bárust
aðeins frá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt þeim tóku 72 í
prófkjöri hjá Samfylkingunni og 40 hjá Sjálfstæðisflokknum vegna
sveitarstjórnarkosninganna 2006. Vegna alþingiskosninganna 2007 tóku 68 þátt í
prófkjöri á vegum Samfylkingarinnar en 169 á vegum Sjálfstæðisflokksins. Í
þessu sambandi má jafnframt geta þess að samkvæmt upplýsingum frá Vinstri
hreyfingunni - grænu framboði hafði enginn frambjóðandi í forvali flokksins á
þessu tímabili meiri kostnað en 300 þús.kr. af kosningabaráttu.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Ríkisendurskoðunnar