Kostnaður við formannsframboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir Samfylkinguna árið 2005 nam tæpum 5,4 milljónum króna og við framboð Össurar Skarphéðinssonar tæplega 1,9 milljónum króna. Þá kostaði formannsframboð Bjarna Benediktssonar fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrr á þessu ári rúmlega 1,5 milljónir króna.
Þetta kemur fram á heimasíðu Ríkisendurskoðunar þar sem birtar eru upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokka og þátttakenda í prófkjörum. Er þar birtur útdráttur úr uppgjöri þessara þriggja formannsframbjóðenda.
Ingibjörg Sólrún, sem sigraði í formannskjöri á landsfundi Samfylkingarinnar 2005, fékk rúmlega 1,8 milljónir í framlög frá lögaðilum og rúmar 2,3 milljónir frá einstaklingum. Önnur framlög en bein fjárfamlög eru metin á tæplega 1,2 milljónir króna, þar á meðal 833 þúsunda króna framlag frá Gunnari Steini Pálssyni.
Össur Skarphéðinsson, sem tók þátt í formannskjörinu 2005, fékk 1,3 milljónir frá einstaklingum og 580 þúsund krónur frá lögaðilum.
Bjarni Benediktsson fék 110 þúsund króna framlag frá lögaðilum og 970 þúsund krónur frá einstaklingum en eigið framlag hans vegna formannskjörsins nam 455 þúsund krónum.
Upplýsingar um kostnað vegna formannskjörs