Frávísunartillaga felld

Þingmenn á Alþingi í kvöld.
Þingmenn á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar

Frávísunartillaga þingmanna Sjálfstæðisflokksins við Icesave-frumvarpið var  með 35 atkvæðum gegn 28.  Frávísunartillaga þingmanna Framsóknarflokks var einnig felld með sama atkvæðamun.

Allir þingmenn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs greiddu atkvæði gegn tillögunni og einnig Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður. Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar studdu hins vegar tillögurnar. 

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði um tillögu sjálfstæðismanna, að á örlagastundum yrði þingheimur að standa saman og tillagan væri úrslitatilraun til þess.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagðist vera andvíg því að Alþingi vísi málinu frá áður en tekin er ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það er þingsins að taka afstöðu til þess, sem að þinginu snýr. Forseti Íslands hlýtur að taka alvarlega undirskriftir 36 þúsund Íslendinga sem þegar hafa óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið," sagði Lilja.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði ljóst, að þessi vandi hyrfi ekki frá Íslendingum með því að vísa frumvarpinu frá. Allt benti til þess, að viðsemjendur Íslendinga beindu að þeim sínum ýtrustu kröfum og tjónið yrði þá mun meira.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði það óhæfu að bera lög Íslendinga undir aðrar þjóðir, eins og gert var í haust eftir að Ísland samþykkti fyrra Icesave-frumvarpið.

Siv Friðleifsdóttir, sagði að tíminn hefði unnið með Íslendingum og vísbendingar væru um að viðsemjendur Íslendinga í Icesave-málinu myndu ekki sýna jafnmikla hörku og áður í nýjum samningaviðræðum.

Lokasprettur Icesave-umræðunnar stendur yfir á Alþingi. Hægt er að fylgjast með netútsendingu á mbl.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert