Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á Alþingi í kvöld hafna því afdráttarlaust, að gögnum hafi verið haldið frá þinginu eins og ásakanir hefðu komið fram um.
Hún sagði, að það hefði verið betra ef lögfræðistofan Mishcon de Reya hefði í löngu lögfræðiáliti sínu sem sent var fyrir jól getið um gögn sem hún taldi að Alþingi þyrfti að sjá.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði, að Icesave-skuldbindingarnar væru aðför að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Sagði hann sjálfstæðismenn hafa gert allt sem í þeirra valdi stæði til að koma vitinu fyrir menn í málinu. Sagði hann, að ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í ríkisstjórn myndi hann gera allt sem í hans valdi stæði til að leiða þjóðina út úr því kviksyndi, sem Icesave-skuldbindingarnar væru.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að Íslendingar yrðu að velja þá leið, sem lágmarkaði skaðann sem Icesave-skuldbindingarnar hefðu valdið þjóðinni. Það væri gert með samningunum við Breta og Hollendinga, sem væru til muna hagstæðari en upprunalegar hugmyndir frá haustinu 2008.
Sagðist Steingrímur trúa því, að árið 2010 yrði árið þar sem efnahagsbatinn hæfist á Íslandi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist ekki telja að nokkur trúi því, að Steingrímur hefði haldið sömu ræðu hefði hann verið í stjórnarandstöðu nú. Sagði hann að leyndarhyggjan hefði sennilega aldrei verið meiri en í þessari ríkisstjórn.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurði hvort stjórnvöld teldu virkilega eðlilegt að skattar 80 þúsund Íslendinga færu árlega til að greiða vexti af Icesave-lánunum og það þótt vafi leiki á að Íslendingum bæri skylda til að undirgangast þessar skuldbindingar.
Hún sagðist ótta að grunnstoðir þjóðfélagsins bresti, verði Icesave-frumvarpið samþykkt, og fólk gefist upp og flýi land. Það sé ógæfuspor, að samþykkja frumvarpið og leyfa eigi þjóðinni að kjósa um Icesave.
Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, sagði tímabært að ljúka þessu Icesavemáli og snúa sér að því að slá skjaldborg um fjölskyldur og heimili.
Lokasprettur Icesave-umræðunnar er nú hafinn á Alþingi. Hægt er að fylgjast með netútsendingu á mbl.is.