Guðbjarti misboðið

Guðbjartur Hannesson í ræðustól á Alþingi í dag
Guðbjartur Hannesson í ræðustól á Alþingi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fundur hófst á Alþingi klukkan 15 í dag eftir að þingfundum hafði verið margfrestað. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, fór þá yfir atburðarásina í Icesave-málinu frá því í gær þegar gögn fóru að berast frá lögfræðistofunni Mishcon de Reya og sagði hann að sér væri misboðið eftir samskipti sín við lögfræðistofuna.

„Klukkan 21:12 í gærkvöldi komu lokaskjölin, 25 skjöl, þar sem segir að um sé að ræða lokaskjölin í málinu... Það var augljóst að menn töldu að í bréfi, sem fylgdi með frá lögfræðistofunni, hafi verið ýjað að því að það væru fleiri gögn í málinu og það var niðurstaðan að í dag að það yrði hringt til Mishcon de Reya og reynt að kalla eftir því hvað þeir ættu við með þessu.

Það verður að segjast eins og er, að þetta hefur verið afar dapurlegur framgangsmáli því þá kom í ljóst, að þótt menn væri að ýja að þessu í gögnum þá hafði stofan ekkert sérstakt í huga.  Þegar við fórum að kalla eftir þessu voru þeir tilbúnir til að setjast við tölvuna og leita að skjölum fyrir Alþingi Íslendinga. Þegar við fórum að fá eitt og eitt skjal eftir klukkutíma bið vegna þess að ekki var hægt að ná tölvusambandi, þá sagði ég stopp. Ég tek ekki þátt í þessum leik," sagði Guðbjartur.

Hann sagði að meðal þeirra 25 skjala, sem komu í gærkvöldi hefðu verið gögn úr breska þinginu og frá lögfræðistofunni Lovells en ekkert, sem átti uppruna hjá Mishcon de Reya.  „Ég verð að viðurkenna, að framgangsmátinn í þessu máli var með slíkum eindæmum að mér var gersamlega ofboðið," sagði Guðbjartur.  

Mikilvæg gögn að berast

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það væri lenska hjá ríkisstjórninni að gera lítið úr öllum sem komi með athugasemdir eða ábendingar. Þá væri alveg ljóst, að eftir að Guðbjartur sagði stopp og fór af fundi og nennti ekki að bíða lengur eftir tölvupóstum þá hefðu borist upplýsingar sem þingmenn yrðu að fá tíma til að fara yfir.  Um væri að ræða mat Mishcon de Reya á samningsstöðu Íslands og hvernig hefði verið haldið á þeirri stöðu. 

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði óumdeilt, að fengist hefðu fyllri upplýsingar um málið þótt óvíst væri hvernig þær myndu gagnast. Kristján sagði, að þær upplýsingar leiði til þeirrar niðurstöðu að hægt hefði verið að vinna betur að málinu en gert var. Einnig hefðu upplýsingarnar leitt í ljós að ákveðin átök væru inni í íslenskri stjórnsýslu.

Svavar ekki kallaður á fund

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að því hefði ekki enn verið svarað hvort það væri rétt eða rangt að íslenskur embættismaður hafi falið mikilvægar upplýsingar fyrir utanríkisráðherra. Þá spurði Guðlaugur Þór hvort formaður fjárlaganefndar ætlaði að láta embættismanninn komast upp með að mæta ekki á fund nefndarinnar. 

Guðbjartur svaraði, að það hefði orðið niðurstaða nefndarinnar í nótt, að Svavar Gestsson yrði ekki boðaður á fund nefndarinnar heldur yrði þess farið á leit að hann skilaði skriflegu álit. Því hefði Svavar ekki neitað að mæta á fund nefndarinnar vegna þess að hann var ekki kallaður fyrir nefndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert