Fjármálaráðherra segir það misskilning að eitthvað nýtt komi fram í gögnum lögmannsstofunnar Mishcon de Reya sem bárust Alþingi í gær. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja með ólíkindum ef greiða eigi atkvæði um frumvarpið án þess að fjallað sé betur um málið.
„Í þessu er ýmislegt nýtt og það að þessum gögnum hafi verið leynt er sér kafli, út af fyrir sig,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks. „Í bréfinu segir að á leiðinni séu gögn sem muni varpa frekara ljósi á málið og menn muni vilja hafa í huga áður en komist er að endanlegri niðurstöðu. Áhugavert er að lögmannsstofan skuli taka þetta sérstaklega fram.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði fram komnar nýjar upplýsingar um að íslenska ríkið hefði haft sterka lagalega stöðu til að höfða mál í Bretlandi, vegna yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins, FSA, á Heritable, breskum banka en að fullu í eigu Landsbankans. Bjarni sagði það aldrei hafa komið fram áður og hljóta að skipta máli þegar þingmenn tækju afstöðu til þess samnings sem lægi fyrir Alþingi.
Sjá nánar um viðbrögð Steingríms, Sigmundar og Bjarna í Morgunblaðinu í dag.